Tíminn/tímaleysi

Já ég sé mér nú ekki annað fært en að tína til einhverjar afsakanir fyrir skorti á viðhaldi á síðunni.   Ég ætla bera við miklum önnum í janúar mánuði.  Það hefur komið skemmtilega á óvart hversu mikið hefur verið að gera í vinnunni,  merkilegt nokk þá hefur mikið verið að gerast á fasteignamarkaðnum þennan mánuðinn.  Mikið skoðað og mikið spekulerað.  Bara gaman af því.  Barni þarf að sinna og kýr að mjóka.  En ætli aðalástæðan sé ekki sú að netsamband hefur ekki komist á heimafyrir.  Bý sko í sveit spurning hvort ADSL tenging  sé nógu góð, en það kemur allt.  Enda er skólinn aftur að byrja og mikið yrði nú gott að vera komin með tenginguna þegar það gerist. 

Enda þarf svo sem ekkert að örvænta ég hef enn skoðanir og ætla mér að hafa þær áfram og mér finnst þetta ágætur staður til að koma þeim að. 

Annars er þorrablót í sveitinni um helgina og þangað á að mæta.  Mikil tilhlökkun, þó ég hafi og sé enn ekki mikið þekkt fyrir að taka hraustlega til matarins þegar um þorramatinn er að ræða,  ætla ég samt að fara, sýna mig og sjá aðra, gæða mér á hákarli og hangikjöti, heyra hvað hefur markvert gerst í sveitinni á líðandi ári og hver veit nema maður taki bara sporið ef vel liggur á manni.


Burstaðu tennurnar, notaðu tannþráð, settu þér markmið, sparaðu.........

Þegar ég var lítil þá hlakkaði ég svo mikið til að ráða mér sjálf.  Gera það sem mig langaði til og gera ekki það sem mig langaði ekki til.  Engir foreldrar að siða mig til eða segja mér að gera eitthvað sem mig langaði ekki til eða hreinlega bara hafði ekki nennu til.

Nú er ég orðin fullorðin, formlega komin á fertugsaldurinn, er sjálf orðin foreldri og uppalandi.  Ég er að sjálfsögðu fyrir löngu búin að komast að því að það þarf enn að gera þessu hluti sem mig langaði ekki til að gera og til að gera lífið nú aðeins auðveldara reyni ég að hafa gaman af þessum hlutum sem ég hef í raun ekki gaman af,  verum raunsæ, hverjum finnst gaman að fara út með ruslið eða þrífa klósettið,,. 

Það er þó eitt sem ég get ekki áttað mig á:   Hvenær í ósköpunum stendur á því að fjölmiðlar hafa tekið við af pabba og mömmu??

Burstaðu tennurnar, notaðu tannþráð, ekki skola munninn eftir burstun, spenntu beltið, borðaðu grænmetið, sparðu, settu þér markmið, hvað sem þú gerir ekki gera ekki neitt....... 

Seldi mamma uppeldisfrasana????  eða var það pabbi??????

Þetta er alveg að ganga frá mér,  ég finn uppreisnar unglinginn reyna brjótast upp á yfirborðið og verkjar í fæturnar við að reyna að sprona við þeirri þróun að fjölmiðlar og auglýsingar stjórni mér og mínu heimili.  Ég er ekki alveg tilbúin til að gefa eftir baráttulaust val mitt til að velja á milli góðu og slæmu venjanna,  já ég er að pirra mig á auglýsingunni  þar sem okkur er sagt hvað eru góðar venjur og slæmar venjur, og "auvitað" er það góð venja að borða morgunkornið sem konan í rauðakjólnum er að auglýsa,.  Þetta er bara eitt dæmi af mörgum,  auglýsingartíminn og spjallþættir eru stútfullir af áróðri hvað við verðum að gera, vera og vera í, hvernig við verðum að vera til að geta komist í gegnum daginn.  Hvernig heimilið verður að líta út svo við getum boðið gestum og gangandi inn til okkar.

Lesandi góður þú ert væntanlega búinn að átta þig á því núna að það er "smá" sjálfstæðisbarátta í gangi. 

Ég gaf systir minni sem var að byrja að búa matarstelli mitt sem er saman sett af eins diskum, djúpum/grunnum, bollum, litlir/stórir, skálum, litlum/stórum/enn stærri, kökufat.... og nú er ekkert eins í skápunum.  Þigg gjarnan diska og bolla sem aðrir vilja losa sig við, helst ef þetta er stakt.  Innbúið er notað og gamalt, sem enginn vill eiga lengur, eins með gardínur og dúka.  Það þarf nú vart að taka það fram að ég kaupi ekki rauða morgunkorn, það eru ekki nammi-dagar á mínu heimili, við reyndar burstum tennurnar, setjum okkur markmið og erum byrjuð að spara fyrir fermingunni þó enn séu 9 ár til stefnu.  En stundum finnst okkur bara best að gera bara ekki neitt.

Svo ég reyni nú að komast að niðurstöðu þá er ég búin að fá nóg af áróðrinum og áreitinu sem riðst yfir mig allan liðlangan daginn.   Ég reyni eftir fremsta megni að nýta minn rétt til að velja og hafna,  ég get jafnframt alveg viðurkennt það að auglýsingar og spjallþættir stjórna lífi mínu.   Hvort sem mér líkar það betur eða verr, en ég reyni að varðveita unglinginn í mér og gefast ekki upp baráttulaust.

Ranghugmynd eða ekki þá vil ég gjarnan trúa því og rígheld  í þá hugmynd að þrátt fyrir allt þá á ég mig sjálft.


Ég á rétt á.....

Eftir hátiðirnar hefur mér verið ofarlega í huga og það líður varla sá dagur að ég heyri ekki þetta það sem ég kalla " tísku orðasamband"  "ég á rétt á..., þú átt rétt á..... eða átt ekki rétt á....".  Það virðist vera alveg sama hvar maður kemur eða um hvað er rætt alltaf eiga allir "rétt á" einhverju eða eiga ekki "rétt á" því. Oftar en ekki er þetta þegar einhvern vantar eitthvað eða vill fá eitthvað.  Ekki er óalgengt að heyra hvatningar orð eins og stattu vörð um rétt þinn/stattu á rétti þínum, ekki gefa eftir rétt þinn, ekki láta vaða yfir þig eða þá á hinn veginn þú átt ekki rétt á einu eða neinu, og gjarnan er þetta nefnt í sömu andrá þar sem gjarnan hinn aðilinn er talinn réttlaus.   Ekki er óalgengt að fólk vilji fá það sem það á rétt á og aðeins meira.  

Það er ekki hægt að koma inn á þetta málefni nema nefna "réttinn" varðandi þjónustu.  Okkur finnst það sjálfsagður "réttur" okkar að fá þjónustu og sættum okkur ekki við neitt minna en góða þjónustu, ef ekki þá teljum við okkur hafa "rétt" til að segja hug okkar umbúðalaust varðandi það (kvörtum yfir þjónustunni)  og bætum gjarnan við áliti okkar á viðkomandi aðila sem veita á þjónustuna þar sem við teljum okkur hafa "rétt" til þess.  Við höfum jú "rétt" til að segja skoðun okkar, ekki satt?  Svo má ekki gleyma því að sá sem þjónustuna veitir hefur jú engan "rétt" til að svara fyrir sig, því óskrifaða reglan er jú sú að "kúninn hefur alltaf rétt fyrir sér".  

Mér finnst það orðið alltof algengt að fólk veður um og yfir allt og alla vegna þess að það "á rétt á"þessu og hinu.  Margir telja sig hafa rétt til að segja hvað sem er við fólk og sérstaklega ef "fólk" starfar við þjónustustaf.  Ég hef mikið hugsað um þetta og virðist alltaf komast að sömu niðurstöðu.  Svo virðist sem mig vanti eitthvað inn í myndina varðandi öll þessi réttindi því ég sit alltaf upp með sömu ósvöruðu spurningarnar.  

  • Hver gaf okkur rétt til að koma illa fram við aðra mannensku, dýr eða hvað það er sem um ræðir?   
  • Hvernig getur "kúnninn alltaf haft rétt fyrir sér" ? 
  • Ef ég fá það sem ég á "rétt á" er þá einhver annar að gefa eftir "rétt sinn"?

Ég fæ þetta ekki til að ganga upp.  

Hefur þú spáð í það ef allir virtu rétt sinn til að koma vel fram við aðra og það sem í kringum þá er?

Hvernig væri heimurinn þá??????

 

 


Árið 2006

Á leið í vinnu í morgun fór ég yfir líðandi ár í huganum.  Þetta var ár vaxtar get ég sagt ykkur.

Í upphafi árs bjó ég ásamt syni mínum hjá móður minni, ók um á 20.000 kr bíl með bilaða kúplingu, vann hálfan daginn og svaf hinn hinn helminginn af deginum.   Ég ákvað þá að þetta væri bara í góðu lagi og þessi hultir væru ekki það sem skiptu máli í lífinu,  ég hefði nú samt, þrátt fyrir lítil veraldleg gæði, mikið að þakka fyrir.   Enn hvað sem því líður þá gerðist það nú með vorinu er nálgaðist páska að ég reimaði á mig nýja skó, smurði nesti og pakkaði búslóð og barni, breyddi út vængina og yfirgaf hreiðrið.  Lendingar staðurinn var neðri hæð í húsi fram í sveit, þar tók nú við hreiðurgerð fyrir litlu fjölskylduna sem tók nú brátt að ljóma í sveitasælunni.  En ekki var þetta nú allt sæla þar sem brast á vetur er sumarið nálgaðist og litla fjölskyldan sat föst á litla rauð heim við hús í sveitinni.   Þá var nú ekki annað en að fjárfesta í fjórhjóladrifinni bifreið svo litla fjölskyldan gæti nú farið bæjaferðir skammlaust.  Var mikið gleði með 10 gamlan subaru sem varð fyrir valinu.  Þar sem rekstrarkostnaðurinn fór nú vaxandi var kominn tími til að vakna hinn helminginn af deginum og mæta í aukavinnu.   Varð fyrir valinu heimilishjálp í sveitinni.   Sumarið rann ljúflega í gegna og stórslysalaust, en sama er ekki hægt að segja um haustið.

Er afmælið mitt nálgaðist á haustdögum fóru hlutirnir að gerast, ekki bara það að formlega væri ég að verða fullorðin, með grá hár og allur pakkinn.  Heldur fór nú svo að í sömu vikunni var mér sagt upp vinnunni, keyrt var á bílinn minn, hann dæmdur ónýtur og ég settist á skólabekk við tölvuna.  Ekki varð þetta nú svo slæmt þegar upp var staðið því í sama mánuði fann ég nýja sjálfrennireið, knúna áfram af dísel olíu, fjórhjóladrifna og ekki má gleyma að nefna lýsandi dæmi hagvaxtarins hjá heimilum, jú bifreiðin reynist vera sliddujeppi.  Uppsögnin á vinnukröftum mínum dregin til baka og þeirra óskað í meira mæli en áður, með gulli og grænum skógi að launum, þ.e. í dag í formi náms, löggildingu í starfinu og hlutur í fyrirtækinu.  Nú undir jólin útskrifaðist ég svo af tölvuskólabekknum með 10 í einkunn, en gráu hárin eru þarna enn þá, þó reynt hafi verið að klóra í bakkan með því að sulla lit yfir.  

Þannig að þegar litið er yfir árið er ekki hægt að segja annað en vöxtur hafi verið hjá litlu fjölskyldunni á liðnu ári, enda hafa búsældar merki gert vart við sig þar sem litla fjöskyldan hefur líka stækkað á árinu...........barnið stækkað og móðirin bætt þyngd barnsins á sig í kílóum talið á árinu. (Klárlega velmögunarmerki, og ekkert annað)

Svo ef við lítum á þetta í stuttu máli þá lagði lítil fjölskylda, á litlum bíl, í litlu herbergi af stað í upphafi árs,  en þar sem vaxtarskylirði hafa verið hagstæð á árinu sem líður erum við nú orðin medium fjöslkylda, á medium bíl, í medium íbúð.... já svona meðal- Jón, sem heldur afstað í ferð í upphafi besta árs sem komið hefur til þessa.

Gleðilegt nýtt ár.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband