mið. 14.3.2007
Lífið í sveitinni
Þeir sem eitthvað þekkja til mín eða hafa um tíma verið samferða mér á lífsleiðinni kemur það sennilega ekki mikið á óvart að ég er aftur komin heim í sveitna. Ég ólst upp í sveit, hef prófað lífið í borginni, litla bænum og stóra bænum en er nú komin aftur í sveitina. Já loksins við upphaf fertugsaldursins er ég komin heim aftur. Mér finnst þetta æðislegt. Ég upplifi mig stundum eins og Sigga Sigurjóns í Dalalífi þegar hann komst í sveitina " I love it". Ég er þó ekki orðin alvöru bóndi með bú og búmark, heldur er ein af þeim sem bý út í sveit en hef atvinnu af öðru en búskap, svona "kaupstaðabóndi" eins og kúrekarnir í Texas kalla það. Þar voru þeir sem klæddu sig eins og kúreka en voru ekki "alvöru" kúrekar, kallaðir "drugstore cowboys".
Ég komst að því síðastliðið haust er ég þáði boð um að taka þátt í dagsverki við að koma jarðeplum úr jörðu í geymslu, að í sveitinni og sveitastörfunum á ég heima. Í framhaldi af því bauðst mér vinna við mjaltir 3-4 kvöld í viku. Til að gera langa sögu stutta þá þáði ég það og í sannleikanum sagt þá hreinlega elska ég það. Mér finnst æðislegt að enda vinnudaginn með þessum bráðforvitnu klaufdýrum, sem gefa okkur hvítagullið. Ég kem alveg endurnærð frá þessari yðju.
Nú stend ég mig að því er ég ferðast hér um sveitina, full eftirvæntingar eftir vorinu sem rétt er að gera vart við sig, með ósk um að komast í heyskap og finn hvernig óskin verður sterkari og sterkari eftir sem dagarnir líða og sól hækkar á lofti. Ég er að hugsa um að kaupa mér hús langt fram í firði og gerast algert náttúrubarn. Ég sé mig svo fyrir mér stinga upp smá garð og rækta þar bæði kartöflur og gulrætur. Sitja á veröndinni í morgunkyrrðinni í klædd lopapeysunni og ullasokkunum (sem ég prjónaði sjálf) með ný malað og uppáhellt kaffi í bolla og heimabakað brauð, langt fram í sveit og alveg elska þetta. Skreppa svo um helgi á nágrannabæ og komast í heimskap og girðingavinnu.
Gæti lífið orðið eitthvað betra en það?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)