Hvað er í boði?

Eigum við að fara yfir hvað er í boði á þessum tímapunkti.

Heimavelli: Er að bíða eftir að þeir opni fyrir umsóknir um íbúðir í byggingu í bryggjuhverfinu (4 herb) og á völlunum í Hafnarfirði (5 herb).  samkvæmt heimasíðu þeirra á að afhenda þær í júlí, júlí og ágúst og svo aftur í október.  Ég sendi þeim póst og fékk til baka að þeir opnuðu 1 mánuði áður en þeir afhenda.  Sem þýðir væntanlega að þær verða ekki afhendar fyrir 24. júlí úr þessu. humm ég á að flytja út 31. júlí jú ok sleppur ennþá.

Almenna leigufélagið:  Jú er að græja umsókn fyrir tvær íbúðir sem þeir voru að auglýsa.  Sennilega orðin of sein fyrir raðhúsaíbúðina í Kringlunni sem hefði hentað okkur mjög vel.  En hins vegar þá átti ég aldrei von á að við fengjum hana.  Já af fenginni reynslu frá því fyrir ári síðan þá er vinsælla að leigja útlendingum heldur en íslenskri fjölskyldu með fullt af börnum.  

En svo er líka íbúð á Framnesveginum 5 herb.  gengur upp en ég er svosem ekkert spennt fyrir staðsetningunni.  En svo aftur það er lúxus sem ég get ekki leyft mér.  Allt húsnæði er betra en að standa á götunni með fjölskylduna.

Ég fylgist oft með bæði mbl.is og visir.is og öðrum leiguvefsíðum í von um að þar komi eitthvað bitastætt.  Hús, raðhús, bloggaríbúðir og hæðir til leigu í eitt ár á 360þus til 450þús á mánuði ...... einmitt nei það er orðið of dýrt. 

Reykjavíkurborg:  Einmitt Reykjarvíkur borg, já er búin að tala við þjónustumiðstöðina fyrir mitt svæði.  Já eitt til þrjú ár í bið eftir húsnæði hjá borginni.  Ég spurði hvað geri ég ef ég er ekki komin með húsnæði þegar ég þarf að flytja út..... "þú flytur til afa og ömmu barnanna (með öll börnin) vestur í Skagafjörð"  þetta var svarið.  Ég sorrý þarf vonandi ekki að útskýra hvers vegna þetta gengur ekki upp.

Full svartsýn ...  er það?  Fyrir einu ári vorum við í þeirri stöðu að við vorum húsnæðislaus.  Við fengum inni hjá systir minni sem býr í 60fm í nokkra daga þangað til við fengum núverandi húsnæði afhent, sem við fengum loforð fyrir 3 dögum áður en við skiluðum húsnæðinu af okkur.  Svo já ég er hrædd, kvíðin og má hafa mig alla við að ríghalda í hverja minnstu vonarglætu sem ég get fundið.

En þetta er staðan eins og hún er í dag varðandi hvað er í boði.  En jú þetta gæti verið breytt á morgun eða hinn.... kannski til hins betra eða ekki eða jú eða ekki.......


Hrakhólar 13

Jæja þá er enn og aftur komið að því að við fjölskyldan erum að flytja.  Ég sem ætlaði að hafa það náðugt í sumar, þetta átti að vera sumarið sem ég þyrfti ekki að flytja.  Síðan við fluttum frá Möðruvöllum haustið 2013 erum við nú að flytja í 6sinn.  

Þessi skrif mín eru ekki ætluð sem væl og í guðanna bænum ekki lesa þau sem væl.  Stundum þarf maður bara vettfang til að segja frá því sem er að gerast í lífinu.  Að pakka heimilinu saman einu sinni á ári tekur á.  Að flytja krakkana á milli hverfa og skóla tekur á.  Að fá reyna að finna húsnæði á þessum brjálaða húsnæðismarkaði tekur á.  Ef það er eitthvað sem ég hef lært af edrúmennskunni þá eru það " segðu það, komdu því frá þér, ekki vera hamstur ".  Þörfin til að tala um þetta er mikil en já maður er nú kannski ekki "skemmtilegi" vinurinn þegar maður er í þessum tilfinningarússibana, eiginlega er maður þessi "nöldurniðurdrepandikvartandi" vinur.  

Þar sem enginn les orðið bogg í dag þá er þetta fínn vettvangur til að pústa aðeins.  Hér kem ég því til með að tjá mig um lífið og tilfinningarnar, hvað er að gerast á Hrakhólum 13.

 


Lífið á bænum

Nú er vorið komið og allt að vakna til lífsins. Janúar til mars er svona að öllu jafna rólegasti tími ársins hér í sveitinni. Nú er allt að komast á fullt, sauðburðirinn er byrjaður og huga þarf að vorverkunum. Reyndar er nú s.s. alveg sama hvaða tími ársins er fyrir húsmóðurina alltaf nóg að gera. Dagurinn í dag er svo sem ekkert ólíkur öðrum dögum..... bara spurning um hvar og á hverju maður byrjar. Að sumuleyti er þetta ágætt að geta ráðið sér sjálfur en þegar úr mörgum verkefnum er að velja er ekki laust við að valkvíði geri vart við sig eða letin heltaki mann alveg meir en góðu hófi gegnir.
Í dag vildi ég hafa allan heimsins tíma því sennilega verður ekki hjá bæjarferð komist þar sem bergmálið í ísskápnum er... já ekki vel séð. Svo þyrfti ég svo sannarlega að taka hraustlega til hér á bæ og þrífa. (já það er ekki hvítskúrað á bænum, en ekki segja neinum). Mest langar mig til að smúla og þrífa tröppurnar í sólinni og skondra svo í fjárhúsin og marka þau lömb sem komin eru. Nú þarf ég að velja á milli þess sem þarf að gera og verður að gerast í dag eða það sem þarf að gera og mig langar að gera í dag. Þetta væri jú auðvitað mikið þægilegara ef mig langaði til að gera það sem þarf að gera. Eða er þetta bara spurningin um að mig langi að gera það sem þarf að gera?

Amma sagði "sumt þarf að gerast á ákveðnum tíma, svo það er eins gott að reyna hafa bara gaman af því" það skildi þó ekki vera að gamla talaði af reynslu og hefði rétt fyrir sér......


Endurkoma

Jæja.... spurning hvort maður byrjar aftur að blogga. Þó margt hafi gerst síðan síðasta færsla var færð. Síðan litla skvísan kom í heiminn hafa komið tveir strákar. spurning um að láta þetta duga svona til að byrja með og sjá hvað maður verður sprækur í þessu í framhaldinu

Stúlka fædd

Jæja þá kemur nú loksins ný færsla hér inn.  Enda tilefni til þann 8. júlí kl 9:35 kom "lítil" stúlka um 19 merkur  ( 4810 gr)  og 56 cm á lengd.   Stelpan er nú alveg hin rólegasta og braggast bara vel.  Aðeins búin að lettast en var nú fljót að koma sér aftur af stað, áður en við fórum af sjúkrahúsinu náði hún að þyngjast um 250 gr á sólahringnum.  Hér er mynd af litlu telpunni.

óskýrð 2008 060

óskýrð 2008 067


Gleðilegt nýtt ár

Þá er komið nýtt ár einu sinni enn.  Sveimer þá ef það er ekki bara satt að árin líði hraðar eftir því sem maður eldist.  Þó hefur nú margt gerst á líðandi ári en samantektin kemur seinna.  Ætlaði bara að setja inn smá færslu hérna með nýjárs kveðjum.

Ekki er nú hægt að segja annað en þetta hafi verið rólegheita jól svo róleg að ég er nú bara rétt að komast í gang aftur.  Fór varla af bæ.  Þó var að sjálfsögðu boðið í afmælispartý hér á nýjársdag þar sem Jóhann Haraldur varð nú fimm ára þann 3. jan sl.  Auðvitað var heilmikið fjör og mikið gaman, drengurinn ánægður og enn ánægulegra hvað margir sáu sér fært að koma svona á fyrsta degi ársins.

Nú er lífið að komast í fyrri horfur, börnin byrjuð í skólanum, drengirnir í leikskólanum og ég í vinnu, bóndinn fékk auðvitað ekki mikið frí yfir hátíðirnar, mjólka skal kýrnar og fóðra ærnar hvort sem Jesúbarnið á afmæli eða ekki.

Ætla nú að láta þetta duga í bili,  þarf aðeins að húsmæðrast svona fyrir helgina.

 Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.


Já ég er enn á lífi.

Ég sé mér nú ekki annað fært en að smella inn smá færslu hérna.  Ótrúlegar breytingar á lífi okkar Jóhanns hafa nú valdið því að ekki hefur verið skrifað mikið hér inn.  En við vorum nú alveg svakalega ánægð á Steinhólum en erum nú mest lítið þar núna.  Við höfum nú fundið okkur annan svefnstað þar sem eru kýr, kindur, hestar, tveir kettir, hundur, þrjú börn og einn maður.  Þannig að nú er alveg brjálað að gera og mikið gaman.  En auðvitað ætla ég nú að reyna að vera duglegri við að setja eitthvað hérna inn. 

 Bestu kveðjur Nýja Möðruvallafrúin

Erum flutt

Bara að skella inn smá hérna.  Við erum semsagt flutt og fer alveg einstaklega vel um okkur.  Ég er orðin árinu eldri, búin að fara í réttir og snjór kominn í fljöll.  Þetta verður mjög stutt færsla þar sem ég ætla að drífa mig heim, er ekki komin með nettenginguna þarna á nýja staðnum en þetta hlítur að koma allt á endanum.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband