Gengið á Esjuna.

Í kvöld var gengið á Esjuna.  Við náðum þó ekki alveg á toppinn en fórum ansi langt með það, áttum ekki langt í steininn sem er 5 áfangi af 6 en drengurinn var farinn að kvart mjög mikið þrátt fyrir að móðirinn væri búin að burðast með hann á bakinu af og til síðari hluta leiðarinnar.  Ég ætlaði á toppinn en hafði það bara ekki í mér að pína barnið meira þannig að við gerðum bara samkomulag um að reyna aftur að ári enda yrði hann þá orðinn 5 ára og þá ætlum við á toppinn.  En þetta var nú samt nokkuð gott bara hjá okkur.  

Við erum reyndar búin að hafa alveg yndislegan dag.  Byrjuðum daginn á Cafe Milanó, náðum í bílinn, fórum á Cafe París, Jóhann hljóp um Austurvöllin og Ingólfstorg þar sem hann reyndar var líka að bursla í vatninu sem flæðir þar um.  Það fannst honum mjög gaman.  Svo rúntuðum við aðeins um Reykjavík.  Fórum í Perluna og renndum á Seltjarnarnesið.  Kíktum síðan í kaffi á pallinn hjá ættingjum hérna.  Svo eins og fyrr segir þá enduðum við daginn á Esju-göngu. 

Sveimer þá ef ég er þá ekki bara búin að ná því að vera alvöru túrhestur í Borginni.

 


Komin aftur af stað

Þá erum við komin til Reykjavíkur.  Við pökkuðum aftur í töskur og brunuðum af stað s.l. laugardag.  Tókum þó aðra stefnu við Brú í Hrútafirði, en ég geri vanalega, renndum yfir Laxadalsheiði, Skógströndina og á Grundarfjörð til "gömlu" pössunarpíunnar.  Ég held ég hafi ekki hitt hana í 10 - 12 ár eða meira.  Mjög gaman af þessu,  farið var í lautarferð við Kirkjufellsfoss þar sem börnin böðuðu sig í fossinum og höfðu gaman af þó kalt hefði verið.  Ég veit það að sonur minn gleymir þessari upplifun seint eða aldrei.  Takk kærlega fyrir okkur.

Þegar lagt var af stað aftur lá leiðin áfram suður Snæfellsnesið.  Ótrúleg fegurð.  Sonurinn lagði sig eftir allan spenningin, ég dólaði mér um um nesi og naut náttúrfegurðar í sólinni.  Auðvitað var ekki hægt annað en að renna upp að Snæfellsjökli af því að ég var nú komin þetta langt.  Stórkostlegt.  Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér, hvers vegna hef ég aldrei gert þetta fyrr,  öll þau ár sem ég bjó í Reykjavík hafði ég mikið dálæti á þessum stórfenglega jökli sem ég hafði útsýni yfir um tíma.  En ég hef í það minnsta látið verða af þessu núna.   Nú erum við komin til Reykjavíkur.  Búin að fara í Kringluna, þar fór Jóhann í Ævintýraland mikið gaman mikið fjör.

Þó eru ekki allir eins ánægði í þessu ferðalaginu,  Bíllinn minn mótmælti svo að ég sá mér ekki annað fært en að láta líta á hann.  Þar er hann svo búinn að hafa aðsetur en er nú tilbúinn.  Dýrt spaug,  ég get ekki annað en velt því fyrir mér,  hvað ætli ég verði lengi að vinna fyrir skuldinni ef ég vaska upp á kaffistofunni?


Heimleiðin

555 km að baki.  Heimleiðin var sko algert æði.  Við pökkuðum í  bílinn og brunuðum af stað á Borgarfjörð Eystri.  Í himnesku veðri keyrðum við alveg guðdómlega fallega leið.  Við fengum okkur kaffi og Egils appelsín í gleri á kaffihúsinu á Bakkagerði, Álfasteinn.  Þar var líka verlað grjót.  Svo fórum við í Hrafnhólma skoðuðum lundan og nutum sólarinnar.  Á leiðinni frá Bakkagerði og áður en við fórum fyrir Landsenda heyrðist í aftursætinu, " mamma ég sé guð"  þá vitum við það ef þú horfir í gegnum glerflösku "egils appelsín" á Borgarfirði Eystri þá sérðu guð. 

Þá lá leiðin til baka og fórum við yfir Lagafossvirkjun og keyrðum Hróarstunguna, stefnan var tekin yfir Hellisheiði Eystri.  Ég hef tvisvar farið þá heiði en alltaf í þoku.  En í þessari ferð var ég bænheyrð, engin þoka.  Vá þetta var alveg æðislegt þvílík fegurð, ég sé sko ekki eftir því að hafa tekið þennan krók.  Ég var svo heilluð að ég bara á ekki til orð.  Stoppaði oft og naut þessa alveg í botn.  

 Þá vorum við komin á Vopnafjörð.  Nú þurfti að taka ákvörðun.  Átti að aka á Bakkafjörð, Þórshöfn og taka Öxarfjarðarheiðina heim, heldur langt því þannig að ákvörðun var tekin um að fara Fossheiðina heim, enda hef ég aldrei farið hana.  Það var mjög gaman að fara þarna þá sá maður yfir Vopnafjörðin, Bustarfell og aðrar náttúruperlur.  Gaman af því.  

Þar sem ég hef aldrei gefið mér tíma til að fara að Dettifossi var tekin ákvörðun um að renna þangað.  Þvílíkur vegur ég get sko sagt ykkur það að hafi verið laus skrúfa eða ró í bílnum hjá mér, þá er hún það ekki lengu,  hún er farin.  Ef einhver frá Vegagerðinni eða þekkir einhvern hjá Vegagerðinni hvernig væri þá að gera eitthvað í þessu.  En burt séð frá því þá var þetta bara stórfenglegt. 

Við höfðum ekki tíma í mikið meira stopp. Dimmuborgir, Jarðböðin og Mývatn verða að bíða betri tíma.  Við komun til Akureyrar á miðnætti þá búin að vera á 12 tíma ferðalagi lagt 555 km að baki skoðað hverja náttúruperluna á fætur annarri.  Í heild var keyrt 1315 km í þessu ferðalagi.  Eftir stutt stopp heima, sundferð í  Hrafnargilslaug og farið með bílinn í smurningu erum við að leggja af stað aftur og nú er stefnan tekin vestur á Snæfellsnes og þaðan suður til Reykjavíkur, hver veit svo í hvaða ævintýrum við endum þar.  En takk fyrir okkur kæru fólk fyrir austan.  Þetta var æðisleg dvöl hjá ykkur.


Mjóifjörður og Dalatangi

Í dag var planið að fara á Eskifjörð og Neskaupsstað en ég ákvað að taka "smá" rúnt þar sem ég sá skilti Mjóifjörður 33 km.  Til að gera langa sögu stutta þá enduðum við á Dalatanga.  Á tímabili rifjaðist það upp fyrir mér hvernig það var að keyra Ólafsfjarðarmúlan áður en göngin komu en Guð minn góður þvílík náttúruperla sem þessi staður og reyndar öll leiðin er.  Við stoppuðum í Brekkuþropi í Mjóafirði og fengum okkur kaffi og appelsín. 

 Mjög gaman að koma þarna, gott viðmót og þægilegt.  Svo þegar við komum að vitanum á Dalatanga var auvitað stoppað og myndað.  Auðvitað var ekki hægt annað en að njóta þess að standa þarna,  vá þetta er þvílík náttúruundur, ótrúlegt. Auðvitað eins og þið sjáið voru teknar myndir í ferðinni og er einnig hægt að skoða þær í myndaalbúminu hér á síðunni undir albúmið Landið.  Svo var nú stoppað hér og þar til að skoða betur eða ná sér í vatn í brúsa úr næstu lækjarsprænu.  Sonur minn sá fullt af myndum úr fjöllunum t.d. Bionical kalla og kubbafjöll.  En eitt get ég sagt ykkur það var alveg þess virði að fara þennan "smá rúnt".      


Kárahnúkar, Sænautasel, Reyðarfjörður.....

Jæja þá er maður orðin svo frægur að hafa komið að Kárahnúkum.  Vá hvað er mikið af náttúruperlum þarna á leiðinni uppeftir.  Og Vá hvað þetta er allt stórt þarna..... ég er svo til orðlaus.  Við þvældum svo þarna um hálendið fengum okkur lummur og kakó í Sænautaseli.  Þetta er alveg ótrúlegt ég held ég sé ekki alveg búin að ná þessu enn.

Svo renndum við mæðginin yfir á Seyðisfjörð og kíktum í kaffi til vinkonu minnar sem ég hafði nú ekki séð í tvö ár.  Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt.  Þó var eins og ég hefði hitt hana í gær.  Alveg ótrúlega gaman af þessu og fegin er ég að hafa drifið mig yfir heiðina.   Svo renndum við sonurinn Fagradalinn í gær og enduðum í Reyðarfirði.  Nei önnur borg heyrðist þá í aftur sætinu.  Honum fannst nú ekki mikið til koma þegar ég var svo að reyna að segja honum vá sjáðu álverið, umm já, voru einu svörin sem ég fékk.  En þar sem við vorum komin þetta langt var ákveðið að renna á Fáskrúðsfjörð.  Og aftur heyrðist nei önnur borg.  Þó fannst okkur enn merkilegra að það var sól þegar við fórum inn í fjallið en engin sól þegar við komum út.  Hver tók sólina.  Eins þegar við heldum heim á leið þá var engin sól þegar við fórum í göngin en sól þegar við komum út úr göngunum.  Þá var minn maður kominn með nóg af þessu og lagði sig í Fagradalnum á leiðinni heim.  Auðvitað er aðeins búið að skella sér í Hallormsstaðaskóg, í sund á Egilsstöðum, skoða Kaupfélag Héraðsbúa og fá sér ís í sjoppunni.  Þetta er nú búið að vera alveg ágætis ferðalag það sem af er en þó hefur sonur minn nú aðeins nefnt það hvort við þyrftum nú ekki aðeins að skreppa til hennar ömmu, hann þurfi nú aðeins að tala við hana.


Egilsstaðaborg........

Það er sko kominn tími til að blogga.  Eins og áður hefur komið fram erum við mæðginin á ferðalagi.  Eftir að hafa komið sér af stað, loksins, keyrðum við í himnesku veðri austur á land.  Auðvitað var stoppað við Goðafoss til að skoða, eitthvað sem mér finnst ég alltaf þurfa að gera ef ég er þarna á ferð.  Syninum fannst þetta nú heldur merkilegt þó ekki síst þar sem hann var nú sannfærður um að þarna væru nú hákarlar.  En hvað um það hann gætti nú allavega að sér þar sem hann vildi nú ekki lenda í kjaftinum á þeim.  Svo var stoppað til að pissa og fá sér smá nesti í Reykjahlíð,  þar gaf sonur minn sig á tal við hvern útlendingin á fætur öðrum til að fræða þá um orkudrykki og annan varning sem í verslunninn var.  Var nú eitthvað fátt um svör.   Auðvitað vöktu litlu ljósastaurarnir á Egilsstöðum mikla athygli en þó ekki eins mikið og Bónus.   "Mamma sjáðu Bónus, þetta er nú skrítið Bónus" glumdi í aftursætinu er við renndum þar hjá.  Ekki minkaði kátínan þegar við sáum svo Landsbankan, "mamma það er allt svo skrítið í þessari borg"


Sumarfrí, loksins

Þessa dagana hamast ég við að reyna að kom mér í sumarfrí. W00t  Gengur svona misvel en er þó að hafast.  Nú á bara eftir að laga til, pakka, henda töskunum og krakkanum í bílinn og bruna af stað.  Wizard

Reyndar er ég búin að afreka það að taka blessaðan bílinn minn alveg í nefið.  Sápuþvo, bóna, extra glans, ryksuga, sápuþvo motturnar, þurrhreinsa sætin og þrífa innréttingar ég á bara eftir rúðurnar og fara með bílinn í smurningu þá er þetta orðið alveg stórglæsilegt.  Það er þá hægt að byrja með sóma að skíta bílinn út aftur Crying  jæja svona er þetta bara.

 En annars gengir þetta nú bara sinn vanagang hérna í sveitinni. Bændur að verða eða búnir að heyja, sauðir og hross farnin á fjall eða afrétt, kýrna í haganum, hundar og kettir að verða búnir að losa sig við vetrarfeldinn.

 Gæti þetta verið eitthvað betra.  Ég er komin í sumarfrí.........jey


Útilegan

Þá er maður formlega kominn í áhugamannadeildina útilegufólksins.  Svo er bara að vinna sig upp deildina. En ég sá það að það er sko langt í það að ég nái atvinnumannadeildinni.  Þá er ég að tala um skuldahala og/eða sigunahreysið með hvíta-leðurhornsófanum og míni viðargirðingu og makindalegan álf með skildinu velkominn í garðinum.  Nei, þá fannst mér þetta nóg samt, tjald, dýnur, grill, gas, pottar, stólar.............. það er bara eins og maður sé að flytja að heiman.  En engu að síður var þessi helgi alveg frábær.  Við fengum alveg yndislegt veður og þar sem ferðafélagarnir voru nokkuð sammálum um að velja sér nokkuð afskektan stað í skóginum var krúsað um skóginn þangað til rjóðrið fannst.  Þar breyddum við úr okkur eins og við gátum.                                           

 

Auðvitað var grillað, farið á göngu, leikið, og setið með kakó, kaffi og nammi við varðeldinn.  Þetta er nú bara gaman,  drengjunum tveimur fannst æðislegt að geta velt sér út úr tjaldinu og göslast á náttfötunum í modinni og mígið þar sem staðið var.   Við mömmurnar nutum þess sko í botn að geta setið á tvíburahúfunum og notið sólarinnar án þess að ofbjóða öðrum tjaldgestum.  Alveg frábært.      Takk fyrir góða helgi samferðafólk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband